Útgerðaminjasafnið á Grenivík var opnað þann 16. júlí árið 2009. Því var valinn staður í gömlum beitningaskúr, Hlíðarenda, eina skúrnum sem eftir stendur af þeim sem byggðir voru fyrir útgerðir Grenvíkinga á fyrri hluta síðust aldar. Sem eina sýnilega tákn fyrri útgerðarsögu Grýtubakkahrepps er skúrinn tilvalinn að hýsa minjar hennar.
Afkomendur Jóhanns Stefánssonar og Gíslínu Stefánsdóttur á Miðgörðum gáfu Grýtubakkahreppi skúrinn og með aðkomu Sæness ehf var stofnað Útgerðarsafnið á Grenivík, sjálfseignarstofnun.
Safnið hefur aðallega að geyma minjar um línuútgerð, veiðarfæri, búnað og verkfæri sem tilheyrðu henni. Mest af því hefur safnast á staðnum en safninu hafa líka áskotnast ýmsir hlutir frá öðrum stöðum.
Hlíðarendi er byggður um 1920 þar sem áður stóð Skarðsbúð, sjóbúð Skarðsbænda. Stefán Stefánsson á Miðgörðum, sem hafði verið formaður á Skarðsbátnum, hóf útgerð á eigin vélbát 1907 og hafði afnot af Skarðsbúð. Þegar hann eignaðist búðina með tímanum reif hann hana og byggði nýjan skúr á grunninum. Af því að bátur Stefáns hét Gunnar lá beinast við að húsið héti Hlíðarendi.
Húsið var naumasmíð, reist úr eins rýru og litlu byggingarefni og kostur var, sumt var endurnýtt úr Skarðsbúð, annað einhver samtíningur. Nokkrum árum seinna stækkaði Stefán skúrinn um helming til vesturs.
Þótt sparlega hafi verið viðað í upphafi stendur húsið þó óbreytt eftir heila öld. Við heildarviðgerð 1996 þurfti ekki að endurnýja annað en undirstöður og hluta af gólfi. Minjagripur frá Skarðsbúð er hespan á hurðinni, smíðisgripur Jóhanns Bessasonar á Skarði frá því um eða fyrir 1870.
Gegnum tíðina hefur Hlíðarendi verið fjölnota hús. Á fyrsta árinu smíðaði Sigfús Þorsteinsson bát þar inni, Hermann, sem stendur á sliska vestan við skúrinn. Fyrst og fremst var þetta beitingaskúr. Þar komu stundum við sögu smærri útgerðarmenn sem fengu leigt horn um afmarkaðan tíma til að beita. Í Hlíðarenda var fiskur líka saltaður, metinn og pakkaður. Þegar vel stóð á var öllu dóti ýtt út að veggjum, sótt orgel eða harmonika og haldið skúrball.
Síðustu árin áður en hann fékk þetta nýja hlutverk var Hlíðarendi aðallega nýttur sem geymsla fyrir ýmiss konar útgerðarbúnað.