UPPHAF VÉLBÁTAALDAR

 

Fyrsta bátavélin kom til landsins árið 1902, Möllerupvél sem sett var í sexæringinn Stanley á Ísafirði. Árið 1904 kom fyrsti vélbáturinn til Eyjafjarðar. Hann hét Þráinn, 5½ smálest og var í eigu Björns Jörundssonar í Hrísey.

Fyrsti vélbátur í Grýtubakkahreppi var nótabátur sem Höfðabræður áttu og fengu  mann frá Möllerup verksmiðjunum til að setja vél í 1905. Báturinn var lengi eftir það nefndur Möllerup en 1914 fékk hann nafnið Loki. Hann var yfirleitt ekki notaður nema til flutninga. Kom þó fyrir að róið væri með línu á honum. Þegar hann var síðast dreginn á land undir 1940 var hann búinn að lenda í ýmsu, m.a. liggja á hafsbotni í viku.

Árið 1907 kom fyrsti vélbáturinn á Grenivik, Víkingur sem Stefán Stefánsson og Oddgeir Jóhannsson áttu. Tíu árum seinna voru gerðir út 15 vélbátar í hreppnum, á Kljáströnd, Grenivík og Látraströnd. Á sama tíma höfðu 13 vélbátar aðrir dottið úr sögunni, brotnað, sokkið eða verið seldir. (Bein úr sjó).