SLARK

 

Ekki gat aðbúnaðurinn um borð talist upp á marga fiska ef miðað er við þægindi nútímans þegar menn ganga inn í eigið herbergi með teppi á gólfi og rafmagnsljósi að lokinni vakt. Svona var þetta t.d. undir 1950 þegar Oddgeir Ísaksson var að byrja að stunda sjóinn:

„Það var smálúkar á Kóp, rétt svo að tveir menn gætu troðið sér þar inn til að liggja, engin kabyssa og ekki neitt. Það voru tvær kojur og hey í dýnunum. Svo mé þetta og lak og dýjaði í þessu öllu, en menn sváfu vel þarna þó að sængin væri stundum dálítið þung.

Menn fóru stundum af stað eins og hálfvitar, vanbúnir að öllu, ekki með nokkurn sjógalla eða neitt. Einu sinni var ég með Venna. Ætli ég hafi ekki verið þrettán ára eða eitthvað svoleiðis. Þá vorum við á færum, ábyggilega að vori til og við drógum trilluna hálffulla úti undir Gjögrunum. Það var loðna og við sáum þorskinn undir bátnum, alveg vegginn. Svo gerði sunnan djöfulsins púðranda á heimleiðinni og það var ekki þurr þráður á manni og ég var svoleiðis að steindrepast úr kulda. Jörundur gamli, vélstjórinn í frystihúsinu í Hrísey dreif mig upp í vélakompuna og hitaði ofan í mig mjólk. Það held ég að sé eitthvað það besta sem ég hef fengið um dagana.“

Menn voru ekki allir orðnir gamlir þegar þeir réðu sig fyrst á bát. Þorsteinn Eyfjörð byrjaði að róa á árabát með Finnastaðamönnum, Þórlaugi, Kristjáni og Mikael. Misjafnt var hversu langt var róið. Það gat verið alveg frá Finnastöðum út að Kjálkanesi. Aldrei þó lengra.

„Við rerum þessir fjórir og beittum og gerðum lítið annað ein tvö sumur. Ég hef líklega verið 12 og 13 ára. Mig minnir að línan sem við rérum með væri mikið svona 16 stokkar. 12, 16, 20 stokkar, allt beitt í bjóð, allt borið á bakinu niður í fjöru. Þetta druslaðist maður með sitt bjóð. Og maður varð nú að vera heldur betur vakur til að allt færi ekki í flækju því að þessu var bara raðað í endann og grunnslóðin kom fyrir framan. Svo var bundið yfir og bjóðið sett upp á herðarnar og lallað undan brekkunni.

Maður fór á kvöldin og lagði línuna. Oft var verið í heyskap allan daginn og svo var farið í róður. Þegar fór að líða á var oft hey í hlöðum á bæjum á Ströndinni og þá gat maður farið í land meðan línan lá og lagt sig. Einu sinni að hausti til þá var farið upp í Sker. Þá var enginn maður heima, bara hey í hlöðunni. Það var svona volgra í heyinu og við Mikki grófum okkur niður og stóðum bara meðan við sváfum. Manni var svona heitt þegar maður kom upp úr þessu, og svo fór maður út og þá var komin austan kuldagjóla og maður ætlaði bara að drepast það var svo kalt.

Línan lá þetta þrjá til fjóra tíma ef maður komst svona í svefn og yfirleitt aldrei skemur en tvo tíma. Þetta var tóm vitleysa. Menn sem voru á árabát voru lengi að leggja, svona hálftíma, klukkutíma og fengu sér svo eitthvað að éta. Þetta var alveg tilvalið að fara strax að draga ef að var einhver fiskur.

Þegar ég var 15, 16, 17 ára var ég flest haustin inni á Vík hjá Stebba. Karlinn gat hvergi verið nema á sjó og eftir að búið var að setja Gunnar á haustin þá var róið á árabát. Við rérum fjórir, Stebbi, Finnur Ben og ýmist Alfreð eða Dúddi Gísla og ég á sexræðingi sem seinna varð trilla, Hermann sem Jói átti. Þá var allt gert. Við beittum sjálfir og svo var alltaf stokkað upp um leið og búið var að draga ef að var veður. Þá sat annar maðurinn aftur á rassgatinu og hafði bjóðið fyrir framan sig. Í horninu á bjóðinu var klossi með gati fyrir stokktréð. Og svo var bara stokkað og grunnslóðin fór niður í sjóinn. Hinn sat frammi í og hafði sama umbúnað. Stundum var búið að stokka allt þegar komið var í land. Það reyndi á hendurnar maður. Ég var svoleiðis að mér var bókstaflega aldrei kalt á höndunum.(Bein úr sjó, 114-116).