SETNING

 

Vestan við Sæland er eitthvert umstang. Þar er samankominn hópur manna, mjólkurtrukkurinn stendur á götunni og bátur liggur fyrir framan sliskann með stefnið uppi í fjöru. Stebbi ætlar að fara að setja Hauk.

Þeir standa þarna í hnapp, tíu karlar, og gefa sér góðan tíma. Ræða pólitíkina, fiskiríið eins og það gerðist best á árunum og fiskleysið núna. Bátseigandinn klykkir út með einni góðri af viðureign sinni við blöðrusel austur undir Flatey laugardaginn fyrir páska 1952 og endar með þessum orðum:

„Þvílík andskotansdjöfulsinsbölvuð þyngsli sem voru á skepnunni. Ég hélt ég ætlaði aldrei að geta náð honum inn fyrir borðstokkinn.“

Í sögulok er dregin upp viskíflaska.  Það er merki um að nú skuli fara að hefja verkið.

Flaskan gengur einn hring og tappinn síðan rekinn í. Eddi sest upp í trukkinn og setur í gang og gefur vírinn út af spilinu. Stefán tekur í krókinn og gengur föstum skrefum fram í fjöruna. Karlarnir fara í humátt á eftir og raða sér kringum bátinn, hver á sinn stað. Þegar krókurinn er vandlega festur í lykkjuna á hnísunni er gefið merki og spilið tekur að snúast. Þetta er ólíkt þægilegra en þegar sett var með handspili þó að væru tvær blakkir á kaðlinum, önnur tvískorin, hin þrískorin. Það var svo sem ekkert erfitt en þurfti að hlaupa nokkuð marga hringi kringum spilið.

Þegar Haukur er kominn upp standandi á þremur rekatrjám og vandlega skorðaður er flaskan tekin fram aftur. Hún gengur hringinn og nú er ekki hætt fyrr en henni er lokið. Raddirnar verða aðeins hærri, sögurnar stórkarlalegri og hlátrarnir hvellari eftir því sem lækkar í flöskunni og meira hitnar fyrir brjóstinu.

Hópurinn dreifist. Þessari árlegu athöfn er lokið. Og þeir geta farið að hlakka til næstu setningar að ári. Að setja Hauk er ekki aukapuð í daglegu streði heldur skemmtun. Skíma í gráum hversdagsleikanum. (Bein úr sjó, 184).