Saltið kom með skipi upp á Víkina. Bjarni Benediktsson á Jarlsstöðum var meðal þeirra sem lentu í því að bera salt:
„Ég var 17 ára í salti hjá þeim á Miðgörðum. Saltskipið lá frammi á Víkinni. Saltinu var mokað úr því beint ofan á dekkið á bátnum sem flutti í land. Þar þurfti að moka því í poka sem síðan var slengt upp á bryggjuna. Var reynt að hafa sem næst 100 pundum í hverjum poka. Við vorum fimm sem bárum upp. Enginn var á bryggjunni til að lyfta undir pokann og mesta erfiðið var að slengja honum á hrygginn. Saltkassinn var ofan við skúrinn og við þurftum að fara bryggjuna endilanga og upp bakkann, upp fyrir skúrinn og sturta því þar inn um lúgu. Við byrjuðum að kvöldi til og vorum til kl. 2 um nóttina. Það var eitthvert hlé hjá þeim í saltskipinu milli kl. 2 og 6. Þá fengu menn að hvíla sig. Síðan var byrjað aftur kl. 6 og klárað.
Í saltburðinum voru Sveinn Oddsson, Alfreð Pálsson, Ingimar Hallgrímsson og að mig minnir Þórir Áskelsson. Þessir kallar voru auðvitað fílhraustir andskotar en ég var ævinlega þróttlaus aumingi. Við byrjuðum á því að hafa pokann á miðjum hrygg, svo varð maður skinnlaus því að seltan fór inn úr fötunum og þá var það ráð gripið að hífa hann alveg upp á herðar. Ég lá bakk lengi eftir þetta helvíti. Maður var eins og laminn hæls og hnakka á milli.“
Bjarni fékk líka að prófa hvernig vinnuaðstaðan var um borð í saltskipinu:
„Stundum var ég í saltskipinu. Oftast í lest, en einu sinni var ég á dekki að færa málið útaf. Þetta var svona eikartunna sem var hífð upp úr lestinni. Mig minnir að hún væri 220 kg. Maður þurfti að hitta nákvæmlega á lunninguna. Kaðalstroffa var neðan í tunnunni og þurfti að hitta með röðinni og halla henni útaf og hvolfa í rennu þar sem rann ofan í bátana. Ég var alveg óvanur og kunni þetta ekki enda var ég að drepast eftir þetta. Ég var allur saman helsár, brjóstið og handleggirnir og einn fingur klemmdur. Heppinn að taka hann ekki af.
En í saltskipinu var miklu meira kaup en í landi. Til að spara mannskap var akkorð, borgað visst á tonn sem losað var. Þá urðum við auðvitað glaðir þegar Vestlendingarnir komu. Það var kaupauki. Árskógsstrendingar tóku stundum salt hérna úr skipi. Trillukarlar úr Víkunum og Hauganesinu. Við höfum líklega fengið 25 kr. fyrir daginn sem var margfalt kaup. Þá fékk maður 6 kr. fyrir að slá heilan dag.
Þetta var alveg djöfulleg vinna. En samt tók útyfir þegar ég fór í saltburðinn á Látrum fyrir þá Steingrím og Hall. Við tókum í Hjalta og fórum með það daginn eftir. Hann var hérna á legunni með saltið um nóttina og við fórum um morguninn. Þetta var flutt í land á árabát og borið upp í skúr þar. Báturinn var lekur og það rann úr pokunum svo það var ekki þurr þráður á manni. Maður var algjörlega fleginn undan þessu. Snjólaust var í fjörunni en uppi á bakkanum svona bleytusnjór. Það kom auðvitað góð slóð en það var sleipt í þessu upp bakkann og upp í salthúsið. Þetta var andskotans vegalengd.“ (Bein úr sjó, 91-92).