PLAT Í ÖRDEYÐUNNI

 

Eitthvert sumarið um 1940 var ördeyðan slík í firðinum að ekki fékkst í matinn. Eina erindið sem hægt var að eiga á sjó var að gera prakkarastrik. Það reyndu a.m.k. þrír unglingspiltar á Kljáströnd, Ólafur Baldvinsson, Sigurður Ringsted og Haraldur Ringsted. Einn góðan veðurdag hrundu þeir fram árabát og höfðu með sér færi. Þeir stefndu hins vegar ekki beint á miðin heldur laumuðust upp í fjöru utan við Hliðskjálf og hálffylltu bátinn af grjóti. Síðan héldu þeir fram á færamiðin og fóru að skaka. Höfðu með sér einn þorsk sem þeir laumuðu útbyrðis og drógu undir kjöl og upp hinum megin, aftur og aftur. Smám saman fluttu þeir grjótið afturí. Úr landi leit þetta út sem þeir væru að hlaða bátinn af fiski þegar hann seig alltaf meira og meira að aftan. Endaði með því að karlar, sem voru í landi og fylgdust með, stóðust ekki mátið lengur og ýttu úr vör. Þá höfðu þeir kumpánar náð því sem þeir ætluðu sér og réru í land. Eitthvað allt annað en hrós fengu þeir fyrir uppátækið. (Bein úr sjó, 101).