MOK

 

Stærsti róðurinn á Hákoni var farinn 1931. Sigfús Þorsteinsson í Kálfskinni var formaður, Jóhann Adolf Oddgeirsson mótoristi og Þóroddur Jónsson háseti. Þeir áætluðu aflann 17 skippund. En líklega hefur hann verið yfir 20 því að þegar farið var að vigta fiskinn fullverkaðan eftir vertíðina kom í ljós að fjórða hvert skippund var framyfir það sem áður hafði verið áætlað.

Báturinn var svo hlaðinn að þegar hann nálgaðist bryggjuna og átti að slá af ætlaði hann niður að framan. Sigfús tók það ráð að keyra hann upp með bryggjunni þar til hann náði botni. Strandaði honum einfaldlega.

Þennan afla fengu þeir úti við Gjögurinn. Líklega á stutta línu. Þegar þeir voru búnir að draga helminginn höfðu þeir fengið meira en fulla lestina. Þá var ekki um annað að ræða en seila allt saman, fara með það inn að Urðum eða inn í Kjálkanesbót og leggja því þar. Settu þeir svo seilarnar ofan á þegar þeir voru búnir að fara úteftir aftur og draga það sem eftir var.

Þeir voru meira en þrjátíu tíma að gera að þessu. Sveinn Oddsson hausaði, feðgarnir Oddgeir og Vernharður flöttu og Jóhann Bessason saltaði. Vernharður var 15 ára, Jóhann 19. Þeir byrjuðu að kvöldi. Klukkan sex á öðrum morgni fór Sveinki inn í skúr og fann Jóa sofandi á stæðunni. Á níunda tímanum tók Oddgeir eftir því að Venni var hættur að taka dálkinn úr. Þegar hann svo skar einn fiskinn þvert yfir var karl fljótur að taka hnífinn af honum. (Bein úr sjó, 101-102).