HAUSTRÓÐRAR Á FINNASTÖÐUM UM 1895

 

frásögn Theódórs Friðrikssonar. Í verum VII. kafla.

Fjórir voru á Finnastaðabátnum og var Ágúst Jónsson formaður. Þeir fóru á fætur kl. tvö á nóttunni til að beita í bæjardyrunum á Finnastöðum. Hver maður beitti fjóra stokka ofan í bjóð. Á hverjum stokk voru 120 önglar. Þar við bættust svo sextíu önglar, sem kallaðir voru spottar, það voru hlunnindi hásetanna. Þeir áttu það sem veiddist á spottann.

„Þegar beitingunni var lokið, var bundið yfir bjóðin með sérstöku bandi, sem hásetar urðu vel að gæta. Þegar gengið var til sjávar, lyftu menn bjóðunum á herðar sér, og var hlaupið í spretti ofan í fjöruna, þegar mikið lá á að komast á sjóinn. Stuttróið var frá ströndinni og var það venja, að skjótast beint fram úr lendingunni, leggja í boga nokkra stokka fram, og beygja svo upp að landi með það, sem eftir var. Þetta var gert í þreifandi myrkri og stundum þótti okkur hann svalur „frostpúðrandinn“ út af Grenivík. Þegar línurnar höfðu verið lagðar, var skotist heim og hölluðu menn sér í öllum fötunum. Höfðu sumir þann sið, að hengja fæturna fram af rúmstokknum, nenntu ekki að taka af sér sjóskóna og fara úr skinnsokkunum. Ekki var farið aftur á flot aftur, fyrr en tók að birta, og hafði þá skatturinn verið borðaður.

Þá var siður, að stokka línuna á sjónum jafnóðum og dregið var. Þurfti til þess mikla hörku, að láta sér ekki verða kalt.  En ef menn urðu loppnir, þótti það karlmannlegt að berja sér, þangað til hiti var kominn í gómana. Fór þetta allt eftir því, hve handfljótir menn voru og handheitir.

Hver háseti skyldi hirða og sjá um stokkana sína, þurrka þá og greiða, og koma þeim á sinn stað.  Ef þetta fór í trassaskap, var hætt við, að beitingin lenti í handaskolum, en lítið mátti út af bera, eftir að spretturinn var hafinn, og ekki svo mikið, að önglabrengl yrði í trénu. Það var keyri á hvern og einn, að hafa spottann, og yrði einhver á eftir við beitinguna, var honum bannað að festa spottann við hlutarlínuna, og því banni var fylgt fast eftir.“

Þegar kom fram á vorið var saltfiskurinn þveginn og borinn niður í fjöru. Þar var hann þurrkaður. Síðan var hann seldur og fór hann annað hvort til Akureyrar eða Hríseyjar.