BEITA

 

Fyrir kom að loðna kom inn á Víkina í stórum torfum. Þorsteinn Eyfjörð var eitt kvöldið að fara á Víði til að leggja og Jón Guðlaugsson í Þengilbakka með honum:

„Það var að verða dimmt. Svo þegar ég kem hér út og vestur þá sé ég að það er svona loðnan að það er alveg skaflinn frá trillunni. Ég bara stoppa og læt svona rétt malla. Við náðum alveg í róður, mokuðum þessu bara beint upp í bátinn.

Í annað skipti þá var ég að fara hérna fram á bryggju. Það átti að vera skemmtun hérna um kvöldið. Mér varð litið vestur af bryggjunni, þá er bara kekkurinn þar. Ég fór heim, fór í bússur og fékk mér körfu. Og þarna fékk ég á annað kast. Ekki varð mikið úr skemmtanalífinu það kvöldið. Það fóru allir að beita.

Einu sinni þegar ég var á Gunnari var ég að þvælast eitthvað í skúrnum. Árni í Sælandi var þar líka. Þá sé ég eitthvað í sjónum alveg upp við fjöru og ég segi við Árna: „Árni, er þetta ekki loðna sem er hérna rétt við fjöruna?“ Hann kemur og lítur. Svo heyri ég bara „ahh“ og spretturinn út úr skúrnum og vestureftir. Ég hljóp til Stebba og það náðist þarna í nýja beitu og allt fór af stað.“ (Bein úr sjó, 105).