ÁREKSTUR Í ÞOKU

 

Þeir eru á landstími á Hallsteini úti á Grímseyjarsundi. Aðeins tveir eru á, formaðurinn Sigurður Ringsted og Baldvin í Bræðratungu. Afli hefur verið góður þennan daginn, gott í sjóinn en svartaþoka. Sigurður stendur sjálfur við stýrið, öruggur á stefnu og staðsetningu þrátt fyrir þokuna.

Skyndilega birtist svart flykki í gráum mekkinum á stjórnborða og stefnir beint á þá. Enskur togari, sem betur fer á hægri ferð vegna þokunnar. Þótt snúið sé hart í bak verður árekstur ekki umflúinn. Togarinn skellur skáhallt á hlið bátsins, sem leggst því sem næst á hliðina, en réttir sig þó við aftur.

Þegar að er gáð hefur komið talsvert gat á Hallstein við áreksturinn rétt ofan við sjólínu, nógu neðarlega til þess að hann tekur þar sjó inn í hverri veltu.

Skipverjar stökkva niður í lest og með skjótum handtökum henda þeir aflanum yfir í bakborðið þar til kominn er nógu mikill halli á bátinn til að gatið haldist vel upp úr sjó.

Togarinn fylgir bátnum alla leið inn að Kljáströnd. Skipstjórinn kennir sér um slysið og vill greiða bætur. Hallsteinn kemur að vísu brotinn úr þessum róðri en þegar landað er kemur fleira upp úr bátnum en þorskur; sterlingspundsseðlar, kassi af koníaki, brauð, skonrok og síróp. (Bein úr sjó, 51).