þegar Jónas Jónsson bjó þar á seinni hluta 19. aldar.
Eftir lýsingu Sæmundar Sæmundssonar í 2. kafla Virkra daga.
Vestan við bæinn á Látrum stóðu tvær sambyggðar skemmur úr torfi með timburgöflum. Þær voru kallaðar grútarskemmur. Þar var lifrin brædd og geymd. Norðan við skemmurnar lá sniðgata úr fjörunni upp á bakkabrúnirnar.
Sunnar á bakkabrúnunum stóð rimlahjallur með torfþaki. Í honum var loft. Í hjalli þessum voru þurrkuð föt. Við vesturhlið hans var trönuhjallur. Þar var fiskurinn þurrkaður þar til hann var orðinn vel hálfþurr. Þá var hann látinn á loftið í rimlahjallinum.
Á svæðinu milli grútarskemmanna og hjallanna var gert að fiskinum og var hann síðan saltaður í einu horni annarrar grútarskemmunnar. Aðeins stærsti þorskurinn var saltaður og seldur. Stærsta ýsan var ráskert, þ.e. hnakkaflött og raufuð á kvið til þurrkunar á rám, miðlungsýsan spyrt og etin sigin, smáfiskurinn var brytjaður í kýrnar. Þegar ekki var til smáfiskur voru höggnar þorskkinnar handa kúnum.