Látra-Björg

 LÁTRA-BJÖRG (1716-1784)

Einstök kona, reri ung á sjó með karlmönnum, var eitt magnaðasta skáld 18. aldar, lifði hálfa ævi sína á flakki og lést á vergangi, örsnauð.

 

Björg Einarsdóttir var fædd í Stærra-Árskógi 1716. Á sjötta ári  kom hún í Látur með föður sínum, Einari Sæmundssyni stúdent, en varð eftir þegar hann flutti þaðan þremur árum seinna.  Við Látur var Björg kennd síðan þótt hún ætti þar ekki heima nema fyrri hluta ævinnar, en hvergi átti hún fast heimili nema þar.

Snemma kom í ljós að Björg var vel viti borin og skáld gott en ekki þótti hún fögur að sama skapi. Hún var þvert á móti kvenna ferlegust ásýndum, hálslöng mjög, hávaxin og kloflöng.

Hún var mjög andsnúin skrauti og sundurgerð, bjóst jafnan sauðsvartri hempu er tók niður á mitt læri. Á höfði gekk hún venjulega með sauðmórauða hettu.

Atferli Bjargar var heldur ókvenlegt í mörgu. Hún gekk til starfa með karlmönnum og reri til sjós framan af ævi.

Einhvern tíma um miðjan aldur fór Björg á flakk og flæktist upp frá því víða um sveitir norðanlands.

Björg var eitt magnaðasta skáld sinnar tíðar og var talin ákvæðaskáld. Margt er til af skáldskap hennar í handritum ýmissa manna en nær ekkert af því skráð af samtímamönnum.

 

Um hettu sína kvað Björg:

Hettan mín, hettan mín,

ó, hettan mín!

Betur holl berum koll

er blíða þín

en kóróna yfrið fín

eðalsteinum búin sín,

sem ófírsgulli öll af skín

öll af skín,

öll af skín.

 

Og um ónýta fötu:

Eykur það mér eymd og pín,

angur, sorg og trega:

Farin er hún fatan mín

til fjandans algerlega.

 

Björg átti stundum hesta og kvað þannig um Skjónu sína:

Skjóna sprangar skriðu létt,

skeifnabangar löndin.

Háls og vanga hringar nett

hún við stangarböndin.

 

Björg var hörku sjómaður og gaf ekkert eftir þeim karlmönnum sem hún reri með, henti jafnvel grín að þeim ef henni fannst þeir ekki leggjast nógu fast á árina.

Róðu betur, kæri karl,

kenndu ekki í brjósti um sjóinn,

harðara taktu herðafall,

hann er á morgun gróinn.

 

Á haukalóð Látramanna kom einhverju sinni aðeins ein lúða, afar stór. Hún var á öngli sem Björg hafði merkt sér um leið og hún kvað:

Sendi drottinn mildur mér

minn á öngul valinn

flyðru þá sem falleg er,

fyrir sporðinn alin.

 

Þetta orti Björg er hún guðaði á glugga á Varðgjá á Svalbarðsströnd:

Æðir fjúk um Ýmis búk,

ekki er sjúkra veður.

Klæðir hnjúka hríð ómjúk

hvítum dúki meður.

 

Á flakki sínu gaf hún þeim sveitum er hún fór um einkunn eftir því hvernig henni var tekið.

Aum er Kinn fyrir utan Stað,

ólánsdruslur hanga,

þar má enginn þvert um hlað

þurrum fótum ganga.

 

Slétta er bæði löng og ljót,

leitun er á verri sveit.

Þeir sem á henni festa fót

fordæmingar byggja reit.

 

Bárðardalur er besta sveit

þótt bæja sé langt á milli.

Þegið hef ég í þessum reit

þyngsta magafylli.

 

Reykjadalur er sultarsveit,

sést hann oft með fönnum.

Ofaukið er í þeim reit

öllum frómum mönnum.

 

Hnjóskadal byggir heiðursfólk.

Í Hnjóskadal fæ ég skyr og mjólk.

Í Hnjóskadal hef ég rjóma.

Hnjóskadals ketið heilnæmt er.

Hnjóskdælir gefa flot og smér

af Hnjóskadals björtum blóma.

 

Á argari sveit er ekki þörf,

ætíð full af nöðru

Helvíti og Höfðahvörf

hlæja hvort mót öðru.

 

Meðal ljóða Látra-Bjargar er þessi lýsing á Fjörðum einna kunnust.

Fagurt er í Fjörðum

þá frelsarinn gefur veðrið blítt,

heyið grænt í görðum,

grös og heilagfiski nýtt.

En þá veturinn að þeim tekur sveigja

veit ég enga verri sveit

um veraldar reit

menn og dýr þá deyja.

 

Björg lést á vergangi að Ufsum í Svarfaðardal 26. september 1784 og var að öllum líkindum jarðsett þar. Sagan segir hana þó hafa fengið leg í Höfðakirkjugarði. Bólu-Hjálmar lést hafa sönnur á því og kvað er hann kom í Höfða:

Dauð frá Látrum borin Björg

byggir leg að Höfða.

Að Gimlasátrum gáfnamörg

gekk með hlátrum sálin fjörg.

 

 

 Sjá:

Helgi Jónsson. Látra-Björg. Helgafell 1949.

Syrpa úr handritum Gísla Konráðssonar. Sagnaþættir 2. Skuggsjá 1980.

Guðrún P. Helgadóttir. Skáldkonur fyrri alda 2. Kvöldvökuútgáfan 1963.